Home » Framhaldsskólabraut

Framhaldsskólabraut

Framhaldsskólabraut er eins til tveggja ára námsbraut sem ætluð er fyrir nemendur sem ekki uppfylla skilyrði inn á aðrar námsbrautir skólans eða fyrir þá nemendur sem ekki hafa gert upp hug sinn varðandi áframhaldandi nám. Um er að ræða 90 – 120 feininga nám sem lýkur með framhaldsskólaprófi á fyrsta hæfniþrepi. Tilgangurinn er að nemendum sé boðið upp á menntun sem henti þörfum hvers og eins. Megináherslan er á að styrkja almenna þekkingu, leikni og hæfni nemenda með áherslu á hagnýtt nám og vinnustaðaþjálfun sem nýst getur nemanda síðar meir á vinnumarkaði. Ennfremur að undirbúa nemendur undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og áframhaldandi nám. Til að útskrifast af framhaldsskólabraut þá þurfa nemendur að stunda nám í tvö ár. Nemendur geta eftir eitt ár á framhaldsskólabraut valið um að skipta yfir á aðrar námsbrautir skólans ef þeir ná tilskildum árangri í kjarnagreinum á hæfniþrepi eitt, sjá inntökuskilyrði á stúdentsprófsbrautir skólans. Megináhersla námsins er þá að styrkja þekkingu, leikni og hæfni nemenda í kjarnagreinum til að þeir geti stundað nám á brautum til stúdentsprófs eða annarra skilgreinda námsloka.

Lokamarkmið framhaldsskólabrautar: 

Að nemandi

  • eigi möguleika á að útskrifast af styttri námsbraut
  • eigi möguleika á að stunda bóklegt og verklegt nám til lokaprófs á starfsmenntabrautum
  • eigi möguleika á að stunda bóklegt nám til stúdentsprófs
  • þjálfist í að nýta sér upplýsinga- og samskiptatækni
  • geti tjáð sig á viðeigandi hátt í ræðu og riti
  • geti lesið, skilið og tjáð sig á viðeigandi máta á íslensku og erlendum tungumálum
  • sé undirbúinn undir þátttöku í atvinnulífinu og öðlist reynslu á vinnumarkaði
  • sé virkur þegn í lýðræðissamfélagi og beri virðingu fyrir ólíkri menningu innan þess

Nemendur sem ljúka framhaldsskólaprófi  fá prófskírteini þar sem fram kemur hæfniþrep námsloka, upptalning á áföngum sem nemandi hefur tekið, umsögn um almenna þekkingu, leikni og hæfni nemandans ásamt yfirliti yfir starfsþjálfun á námstímanum.

Námið er byggt upp með kjarnagreinunum íslensku, stærðfræði og ensku þar sem nemendur fá aðlagaða kennsluáætlun við sitt hæfi. Í boði verður að taka önnur fög af öðrum námsbrautum skólans. Námið er einstaklingsmiðað og byggt að hluta upp í kringum verklegar greinar þar sem áhersla verður í kringum hagnýtt nám og tengingu við atvinnulífið. Mikil áhersla er lögð á að vinna með styrkleika og áhugasvið nemenda í tengslum við skipulagningu námsins.