Fyrirlestur um geðræn málefni

file_000

Hópur háskólanema hefur unnið að því að búa til fræðsluefni um geðræn málefni fyrir nemendur í menntaskólum. Í kringum þetta starf var félagið Hugrún stofnað en að því standa nemendur í læknisfræði, sálfræði og hjúkrunarfræði við HÍ. Markmið fræðslunnar eru m.a. að eyða fordómum tengdum geðsjúkdómum og að kenna nemendum hvað stuðli að góðri andlegri heilsu.

Í morgun komu þau Teitur sem er á fyrsta ári í læknisfræði og Dóra Sóldís sem er á fyrsta ári í sálfræði og töluðu við nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar. Þetta var afar áhugaverður og góður fyrirlestur hjá þeim sem fór fram á jafningjagrundvelli þar sem nemendur fengu tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og spyrja spurning. Rætt var um kvíða, þunglyndi, fíkn og margt fleira. Við þökkum félaginu Hugrúnu og þeim Teiti og Dóru Sóldísi kærlega fyrir áhugavert erindi.

Geðheilsa nemenda er eitthvað sem við í Menntaskóla Borgarfjarðar tökum mjög alvarlega. Nýlega var skrifað undir samkomulag við Stéttarfélag Vesturlands í því samkomulagi felst að nemendur MB geta fengið allt að fjóra fría sálfræðitíma hjá sálfræðingi að sínu vali, gegn tilvísun frá náms- og starfsráðgjafa. Menntaskólinn greiðir fyrsta tímann og sjúkrasjóður Stéttarfélags Vesturlands næstu þrjá tíma að hámarki. Nemendur eru þegar farnir að nýta sér þessa góðu þjónustu og erum við Stéttarfélagi Vesturlands þakklát fyrir þetta góða samstarf.

Innritun í framhaldsskóla á vorönn 2017

Opið fyrir umsóknir dagana 1. – 30. nóvember.

Sameiginlegt umsóknartímabil framhaldsskóla sem bjóða upp á innritun fyrir nám á vorönn 2017 verður dagana 1. – 30. nóvember. Skráning fer fram rafrænt á menntagatt.is  Nánari upplýsingar um skráningu gefur skrifstofa skólans í síma 4337700

Tómas R. Einarsson í heimsókn í MB

tomasTómas R. Einarsson heimsótti nemendur og starfsfólk Menntaskóla Borgarfjarðar í dag. Tómas er þekktur fyrir frábæra hæfileika á kontrabassa og sem djass tónskáld auk þess sem hann hefur tekið að sér þýðingar á spænskum bókmenntum yfir á íslensku. Tómas er einn afkastamesti lagasmiður í íslenskri djassmenningu og hefur unnið með mörgum góðum tónlistarmönnum eins og Mugison, Ragnheiði Gröndal, Sigríði Thorlacius og fleirum. Árið 2003 hlaut Tómas tvenn verðlaun á Íslensku Tónlistarverðlaununum fyrir breiðskífu sína, Havana en árið 2004 hlaut platan “Dansaðu fíflið þitt, dansaðu!” öll þrenn verðlaunin í djassflokki Íslensku Tónlistarverðlaunanna.

Tómas ræddi um hagkvæmi spænskukunnáttunnar og sagði frá því hvað hafði orðið til þess að hann fór að læra spænsku og hvaða möguleika spænskan opnaði fyrir honum í tónlistinni. Hann spilaði fyrir okkur nokkur tóndæmi á kontrabassann og sýndi okkur myndbönd og spilaði fyrir okkur hljóðritað lag. Við þökkum Tómasi kærlega fyrir áhugaverðan fyrirlestur og David Hildalgo Rodriguez spænskukennara fyrir að hafa boðið honum að koma til okkar.